Lífið og þú

Birta dagsins ljómar og loftið er svo tært.
Lífið við mér brosir. Nú er hjartað endurnært.
Vorsins ljúfi andblær um vangann strýkur mér.
Vakna lífsins töfrar er ég hvíli' í faðmi þér.
    Ó hvað Guð er góður við mig
    að gefa mér lífið og þig.

Hjarta mitt var rökkvað og húmið sótti að.
Hjá þér fann ég ljósið sem þú berð í hjarta stað.
Höfund lífs og gleði af hjarta tigna má,
hann sem gaf mér lífið, lét mig í þér lífið sjá.
    Ó hvað Guð er góður við mig
    að gefa mér lífið og þig.

Norðurljós á himni er ævintýri líkt -
lofsöng veröld syngur, þegar undur verður slíkt:
Hamingju í hjarta ég finn í faðmi þér
Finnst mér sem ég svífi, þegar þú ert nærri mér.
    Ó hvað Guð er góður við mig
    að gefa mér lífið og þig.

Líf af augum tindrar, þar ljóma stjörnur tvær.
Tár á hvarmi blikar, er þú kveður, ást mín kær.
Í augu þín ég horfði, í hjartans djúp þitt inn.
Hjá mér ætíð vertu, þú mátt eiga vilja minn.
    Ó hvað Guð var góður við mig
    að gefa mér lífið og þig.


Guðlaugur Gunnarsson,
Apríl 2006.